Ferill 616. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1692  —  616. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um viðbrögð við vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra og sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn ráðuneyta.


     1.      Hvert geta starfsmenn innviðaráðuneytis leitað sem telja sig verða fyrir vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra, svo sem einelti og áreitni eða annars konar ofbeldi?
    Starfsfólk ráðuneytisins getur leitað til síns næsta yfirmanns, til mannauðsstjóra, trúnaðarmanns, Vinnueftirlitsins auk þess sem ráðuneytið hefur gert samning við Auðnast sem veitir þjónustu varðandi heilsu og félagslegt öryggi starfsfólks. Þangað getur starfsfólk leitað eftir stuðningi og fræðslu án þess að tilvísun þurfi frá ráðuneytinu og nafnleyndar er gætt varðandi það hver leitar þjónustunnar.

     2.      Hefur ráðuneytið gert samning um sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn sl. 5 ár? Ef svo er, hvert var tilefni slíks samnings/samninga og hver var kostnaður af honum/þeim? Svör óskast sundurliðuð eftir málefnasviðum ráðuneytisins í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ráðuneytunum í fyrra.
    Ráðuneytið hefur ekki gert slíkan samning fyrr en á þessu ári að gengið var frá samningi við Auðnast. Tilefni samnings er fyrst og fremst að efla forvarnir og fræðslu meðal stjórnenda og starfsfólks og aukin áhersla á sálfélagslegt öryggi á vinnustaðnum. Ráðuneytið leggur áherslu á að fylgja þróun á vinnumarkaði varðandi þessa þætti og samningar sem þessir hafa færst í vöxt. Kostnaður ráðuneytisins vegna samningsins er kr. 109.000,- á mánuði og innifalið í því er margvísleg þjónusta, m.a. þjónusta trúnaðarlæknis.

     3.      Hver er útlagður kostnaður ráðuneytisins af kaupum á sálfélagslegum stuðningi við starfsfólk vegna vanlíðunar og/eða álags á vinnustað sl. 5 ár? Svar óskast sundurliðað eftir málefnasviðum ráðuneytisins í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ráðuneytunum í fyrra.
    Útlagður kostnaður ráðuneytisins af kaupum á sálfélagslegum stuðningi við starfsfólk vegna vanlíðanar og/eða álags á vinnustað er samtals kr. 181.500 á tímabilinu frá 2018–2022. Almennt eru ekki skráðar upplýsingar um nöfn þeirra sem slíka þjónustu þiggja á reikning vegna þjónustunnar og ráðuneytið heldur ekki skrár yfir viðkvæmar persónuupplýsingar sem þessar. Því er ekki mögulegt að veita þessar upplýsingar sundurliðaðar eftir málefnasviðum.